Melabúðin - verslun sælkerans
Melabúðin var stofnuð árið 1956 og markaði með opnun sinni mikilvæg tímamót í verslunarsögu borgarbúa. Með henni fengu viðskiptavinir í fyrsta sinn að ganga um verslun, velja vöru sína úr hillum, á sínum hraða og af sinni sérvisku, og setja í sína körfu. Loksins þurfti ekki lengur að fá það sem kaupa þurfti afgreitt yfir búðarborð, og þeirri nýjung tóku Reykvíkingar auðvitað fagnandi.
“Melabúðin er miðstöð þeirra sem á Melunum búa”
Verslunin var hönnuð af sjálfum Gísla Halldórssyni, sem teljast má einn af þekktustu og afkastamestu arkitektum borgarinnar. Allt frá opnun hefur hún staðið nánast óbreytt, á sama stað, merkt sama klassíska letrinu. Þess vegna þekkja allir Melabúðina, hún er jafn sígild í hugum fólks og Sundhöllin, Hallgrímskirkja og Austurvöllur.
Persónuleg þjónusta og breitt vöruúrval
Góð þjónusta hefur frá upphafi verið stolt okkar, hún er okkar kyndilberi í vaxandi samkeppni og fjölgun verslanakeðja, sem sprottið hafa upp um allar trissur síðustu áratugi. Sama má segja um vöruúrval, en allt frá fyrsta opnunardegi höfum við lagt okkur fram við - og jafnvel gengið skrefinu lengra en annars staðar þekkist, til að kúnninn okkar fái í hendur þá vöru sem óskað er eftir. Við leggjum okkur öll fram við að svara óskum gesta okkar, og leggjum ríka áherslu að þeir fari frá okkur sáttir.
Eins og flestir vita, bæði fastakúnnar og aðrir sem leið eiga um, þá er Melabúðin langt frá því að vera venjuleg verslun. Þar finnurðu, enn í fullu fjöri, hina klassísku kjörbúð, eins og áður fyrr tíðkaðist. Þar er alla daga ys og þys, líf og fjör. Nágrannar hittast og taka spjall frammi fyrir okkar fræga kjötborði, kunnugir og ókunnugir mætast á göngunum og bjóða góðan daginn. Verslunarferð til okkar er ólík öllum öðrum.
Einhverjir kunna að nota orð eins og gamalgróin eða gamaldags um Melabúðina. Við berum þá líkingu með stolti, og ef það vefst fyrir fólki af hverju við höfum ekki, 70 árum frá opnun, farið í það sem vel þekkt er á Íslandi og kallað ,,gagngerar breytingar“ þá er svarið við því einfalt: það er bara nákvæmlega engin þörf á því og engin ástæða til. Hér sannar nefnilega sá frægi viðskiptafrasi sig: If it ain’t broke, don’t fix it! Og þótt Melabúðin sé komin á virðulegan aldur, þá hefur hún sjaldan verið hressari. Hjarta hennar er stórt, og það slær taktfast inn í nýja tíma og bjarta framtíð.

